Nú fer senn að líða að því að almennt göngutímabil hefjist á Fimmvörðuhálsi og umferð þegar farin að aukast. Fyrir nokkru gekk um 50 manna hópur íþróttafræðinema við Háskólann í Reykjavík yfir Fimmvörðuháls og lentu, eins og við mátti búast, í ævintýrum á leiðinni. Veður sýndi skapsveiflur og hagaði sér eftir eigin geðþótta eins og vel er þekkt á Hálsinum milli jökla en allir komust heilir á húfi á leiðarenda.
Eyrún Stefánsdóttir sendi ferðasögu og myndir sem lesa má og skoða hér og sendum henni kærar þakkir fyrir.
Hópurinn naut leiðsagnar fimm fararstjóra og allir sem leggja á Fimmvörðuháls eru hvattir til þess að kynna sér aðstæður og veður vel auk þess að hafa fullnægjandi búnað og vistir til göngunnar. Hægt er að slást í för með fyrstu ferð Útivistar í sumar sem farin verður næstu helgi, 13. júní nk. og auðvitað kynna sér allar skráðar ferðir 2014 á Fimmvörðuháls.is hér.
Öllum er frjálst að senda ferðasögu (óháð því hversu langt er síðan hún var farin) af Fimmvörðuhálsi á gudmundur(hjá)fimmvorduhals(punktur)is. Ekki er verra ef myndir fylgja sögunni!