Styttist í annan endann

Nú sér fyrir endann á almennu göngutímabili yfir Fimmvörðuháls.  Ferðafélag Íslands hefur þegar farið sína síðustu skipulögðu ferð í ár og Ferðafélagið Útivist heldur í síðustu göngu sumarsins yfir Hálsinn næstu helgi.  Einhverjir ferðaþjónustuaðilar bjóða þó upp á göngur yfir Fimmvörðuháls frameftir hausti og stefnt er að því að skálavarsla verði í Fimmvörðuskála út ágústmánuð.

Þetta árið hefur veður haft jafnvel meira að segja en oft áður og undirsíða tileinkuð veðurspám á Fimmvörðuhálsi hefur verið með þeim allra vinsælustu á Fimmvörðuháls.is.  Aflýsa hefur þurft nokkrum skipulögðum ferðum vegna veðurs í sumar en slíkar ákvarðanir lýsa almennt ábyrgri afstöðu ferðaþjónustuaðila.  Þegar miklir vindar og tindar koma saman ætti ferðafólk ekki að njóta vafans og halda frekar af stað þegar betur viðrar.

Það er þó ekki of seint að ganga yfir Fimmvörðuháls í sumar – enn er hægt er að skrá sig í göngu Útivistar eða undirbúa göngu á eigin vegum og skella sér í ferð um stórbrotið landslag, vel undirbúin(n) þegar veður skapar ekki óþarfa hættu.

Góða ferð!

All rights reserved - Theme from Accesspress Copyright: Guðmundur Örn Sverrisson - Fimmvorduhals.is