Nú er almennu göngutímabili yfir Fimmvörðuháls lokið og skálum hefur verið lokað. Síðasti skálavörður í Fimmvörðuskála Útivistar kom til byggða 31. ágúst sl. en þeir sem erindi eiga á Fimmvörðuháls og vilja nota aðstöðu ferðafélaganna á Fimmvörðuhálsi er bent á að hafa samband við Ferðafélag Íslands vegna Baldvinsskála eða Útivist vegna Fimmvörðuskála.
Segja má að ferðasumarið hafi gengið stór-áfallalaust fyrir sig þó vissulega hafi eitt og annað gengið á. Upphaf sumars einkenndist af miklum snjóþunga og setti það strik í reikning margra þeirra sem áætlað höfðu að leggja á Hálsinn. Fegurðin í snjónum sveik þó engan sem á annað borð treysti sér í gönguna eins og myndir sem við fengum sendar sýndu vel.