20. Jónsmessuganga Ferðafélagsins Útivistar var gengin síðastliðna helgi, aðfararnótt laugardagsins 21. júní 2014. Ríflega hundrað manns gengu upp frá Skógum í tveimur hópum á föstudagskvöldi og að vanda var gengið yfir Fimmvörðuháls í einum rykk yfir nóttina. Ferðin sóttist vel án stóráfalla og gengu langflestir þátttakendur alla leið í Strákagil þó einhverjir hafi þó þurft að fá far niður Skógaheiðina, m.a. vegna veikinda. Eins og svo oft á Fimmvörðuhálsi var gengið um tíma í þoku sem varð ansi þétt um tíma.
Við göngubrú yfir Skógaá hafði Útivistarfólk slegið upp tjaldi, bauð göngufólki upp á heitt kakó og flatkökur með hangiketi og í Fimmvörðuskála var boðið uppá íslenska kjötsúpu og meðlæti. Á Heiðarhorni var göngunni fagnað og vel tekið á móti fólki að morgni laugardags í Strákagili eins og venja Útivistarfólks er á Jónsmessu. Á laugardegi var slegið upp veislu, 31 lambalæri grillað ofan í mannskapinn og síðan haldin kvöldvaka við varðeld og söng en áætlað er að um 500 manns hafi tekið þátt í þeirri gleði.