Færð á Fimmvörðuhálsi

Nokkuð hefur verið spurt um færð á Fimmvörðuhálsi.  Óhætt er að segja að hún sé á batavegi og er snjólína nokkuð ofan við göngubrú yfir Skógá að sunnanverðu en nær niður á Morinsheiði á norðanverðri gönguleiðinni.  Snjór er á heiðinni sjálfri en ekki í miklu magni og nokkuð líklegt að Morinsheiði verði snjólaus á næstunni.

Þó svo að færðin sé betri en fyrir viku síðan er rétt að taka fram að enn er mikill snjór á Fimmvörðuhálsi og liggur snjór á um helmingi gönguleiðarinnar.  Snjórinn er vitaskuld þungfærari en auð gönguleið og þegar líður á daginn er hann blautari og þungfærari en þegar kaldara er í lofti.  Þeir sem ætla sér að leggja á Fimmvörðuháls um helgina eru hvattir til þess að skoða gistimöguleika en tveir skálar eru á Fimmvörðuhálsi, Baldvinsskáli og Fimmvörðuskáli, því auðveldara er að ganga leiðina á tveimur dögum með næturhvíld sem getur komið sér vel í þungri færð eins og nú er.

Ganga á Fimmvörðuháls er strembin og þung færð bætir vel í.  Því er ekki mælt með því að fólk leggi af stað nema vel búið, vant fólk í góðu líkamlegu ásigkomulagi.  Öryggismálin þurfa að vera í lagi.  Skiljið eftir ferðaáætlun, verið vel búin nesti, búnaði, staðsetningartæki, samskiptatækjum, korti og áttavita og fylgist vel með veðurspám en veðurfar á Fimmvörðuhálsi getur verið gjörólíkt því sem er í Goðalandi eða Skógum.

Athugið að ofangreindar upplýsingar eru til viðmiðunar, allir þeir sem leggja í ferð gera það á eigin ábyrgð og forsendum.

All rights reserved - Theme from Accesspress Copyright: Guðmundur Örn Sverrisson - Fimmvorduhals.is