Ekki er takmarkað aðgengi um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls en göngutímabil leiðarinnar má miða við að sé frá 20. júní til 1. september þó aðstæður séu mjög mismunandi eftir árum.
Mikilvægt er að göngumenn geri sér grein fyrir því að utan þess tímabils séu þeir utan ferðatíma (off-season) og taki mið af því við val á búnaði og mati á líkamlegu ástandi og getu til ferða utan annatíma.
Vissulega er hægt að njóta leiðarinnar yfir Fimmvörðuháls utan almenns göngutímabils og hefur ferðafólk einnig farið á skíðum og jeppum á Fimmvörðuháls að vetrarlagi. Er þá gjarna komið á Hálsinn akandi yfir Mýrdalsjökul.
Mjög mikilvægt er að þeir sem ætla sér á Fimmvörðuháls utan almenns tímabils gæti vel að aðstæðum og veðri og séu vel búnir til ferðarinnar líkamlega sem og búnaðarlega. Ávallt skal láta aðstandendur vita af ferðum sínum og einnig er mælt með því að fylla út ferðaáætlun á Safetravel.is.