Fyrsta skipulagða ferðin í ferðaáætlun Útivistar var farin fyrir tæpum tuttugu árum eða 24. -25. júní 1994. Hugmyndin að slíkri ferð hafði verið að gerjast í nokkur ár en með endurbyggingu skála Fjallamanna á Fimmvörðuhálsi árin 1990-1991 jukust ferðir til muna yfir hálsinn og þekking og kunnátta fararstjóra á svæðinu þar með. Undirrituð fór í sína fyrstu næturgöngu yfir Fimmvörðuháls í júli 1990 og var tilgangur þeirra
r ferðar að kveðja gamla skála Fjallamanna sem var svo rifinn nokkrum vikum síðar og bygging nýja skálans hófst. Við vorum fjórir félagar í þessari ferð og hrepptum þoku og sudda megnið af leiðinni sem m.a. varð til þess að við töpuðum áttum í smástund á Morinsheiðinni. Sumarið á eftir skipulagði Útivist næturgöngu með hóp frá Einari J. Skúlasyni sem tókst afar vel og sú hugmynd að setja slíka ferð í ferðaáætlunina skaut fastari rótum.
Alls tóku þátt 28 farþegar í Jónsmessunæturgöngunni í júní 1994 tóku og fararstjórar voru þeir Árni Jóhannsson og Páll Ólafsson. Þótti þetta alveg dágóður hópur en á þeim tíma var ekki algengt að fjöldi göngumanna væri mikið yfir tuttugu í ferðum yfir hálsinn. Föstudagskvöldrúta í Bása fór með gönguhópinn að Skógum og hófst gangan um kl. 23 í fallegu og kyrru veðri. Gengið var upp með Skógánni hefðbundna leið og tekið gott stopp við Fimmvörðuskála eftir tæpa fimm klst. langa göngu. Áfram var haldið norður yfir hálsinn en á þeim tíma var nægur snjór og unnt að fara niður brekkuna norðan við skálann. Sólin var komin hátt á loft og var hitinn slíkur að göngumenn voru sumir hverjir komnir á stuttbuxur á jöklinum. Við Heljarkamb var aftur áð og nú skálað í freyðivíni fyrir velheppnaðri göngu. Básar tóku vel á móti göngufólki með gróðurilmi og blómaskrúð, tíu tímum eftir að ferðalagið hófst við Skógafoss. Framhaldið þekkja margir, næsta ár voru þátttakendur um 100 talsins og þegar best lét voru á fjórða hundrað farþegar í Jónsmessunæturnæturgöngu Útivistar. Umferð um Fimmvörðuháls var ekki mikil fyrir tuttugu árum, ég man ekki til þess að við hefðum hitt nokkurn mann á leiðinni, en nú er sagan önnur.
– Ása Ögmundsdóttir