Síðastliðna helgi fóru forsvarsmenn Ferðafélagsins Útivistar í könnunarferð á Fimmvörðuháls til undirbúnings Jónsmessugöngu yfir Fimmvörðuháls sem er á ferðaáætlun félagsins 21. árið í röð. Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem breyta þarf Jónsmessugöngu því í eitt þurfti að breyta ferðatilhögun vegna veðurs og annað vegna eldgoss í Eyjafjallajökli.
Skemmst er frá því að segja að færðin á Fimmvörðuhálsi er mjög þung og um helmingur göngunnar er á snjó sem víða er blautur og mjög þungfær. Félagið hefur því ákveðið að hætta við göngu yfir Fimmvörðuháls þessa helgi en heldur þess í stað í Guðrúnartungur og upp Hestagötur. Gengið er inn Krossáraura sunnan megin við Krossá og gengið inn með Tungnakvís að Tungnakvíslarjökli. Þá er gengið upp Hestagötur á Foldir þar sem komið er inn á leiðina yfir Fimmvörðuháls rétt neðan við snjólínu og gengið niður í Strákagil um Kattarhrygg í Bása. Þessi ganga er um 15 km að lengd og tekur um 7-8 klukkustundir um fáfarnar slóðir á Goðalandi.
Mikið fjölmenni er jafnan í Jónsmessugöngum Útivistar og því mikið verk að tryggja öryggi göngumanna í fjölmennum göngum við erfiðar aðstæður. Með þessari ákvörðun sýnir félagið ábyrgð í verki og er til fyrirmyndar fyrir aðra sem ferðast á eigin vegum.
Sem fyrr er fólk hvatt til þess að fresta áætluðum ferðum um nokkurt skeið þar til aðstæður verða betri.
Hér má sjá myndir úr leiðangri Útivistarfólks síðastliðna helgi:
Myndir: Skúli H. Skúlason
Myndir birtar með góðfúslegu leyfi.