Fannst heill á húfi

SAR Landsbjörg

Stuttu fyrir klukkan sex í gærkvöldi, 23. maí 2015, hringdi göngumaður í neyðarlínu af Fimmvörðuhálsi.  Hafði maðurinn gengið í hartnær átta klukkustundir en þoka hafði gert honum erfitt fyrir með rötun og var hann óviss um staðsetningu sína.  Þar að auki var símtæki hans að verða straumlaust og þegar skammt var liðið á símtalið rofnaði sambandið.  Voru því björgunarsveitir sendar gangandi til leitar bæði frá Básum og Skógum en þaðan voru sveitir einnig sendar á snjósleðum og bílum við nokkuð erfið leitarskilyrði.

Maðurinn fannst þó heill á húfi skammt frá Fimmvörðuskála en hann fundu menn frá Ferðafélaginu Útivist sem þar voru staddir en félagið á skálann.  Fóru þeir með manninn í skála þar sem hann gistir og verður fluttur til byggða í dag, Hvítasunnudag.  Mikil mildi þykir að maðurinn hafi fundist á merktri gönguleið en auðvelt er að villast útaf henni í þoku sem gerir leitina mun erfiðari.

Veðurfar á Fimmvörðuhálsi er sérstakt sökum hæðar hans og staðsetningu milli jökla.  Vel þekkt er að þykka þoku leggi yfir Hálsinn í skemmri eða lengri tíma, jafnvel með afar skömmum fyrirvara, og ekki er á vísann að róa þó sól og blíða sé í Skógum eða Strákagili við upphaf göngunnar að slíkt veðurfar muni einkenna gönguna yfir Fimmvörðuháls.

Tilkynning Landsbjargar

All rights reserved - Theme from Accesspress Copyright: Guðmundur Örn Sverrisson - Fimmvorduhals.is